25 Febrúar 2015 15:09
Fréttatilkynning frá
Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra
Akureyri, 25. febrúar 2015.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra og Akureyrarkaupstaðar um átak gegn heimilisofbeldi. Um er að ræða átaksverkefni sem hefst 1. mars n.k. og er gert ráð fyrir að það standi í eitt ár og að árangur verði metinn að því loknu. Saman munum við vinna að þessu verkefni í samráði við hagsmunasamtök og aðra sem geta lagt verkefninu lið.
Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og vernda börn sem búa við heimilisofbeldi.
Samkvæmt rannsókn sem Rannsóknarstofa í barna- og fjölskylduvernd vann árið 2010 fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið kom fram að rúmlega 42% aðspurðra kvenna á Íslandi höfðu verið beittar ofbeldi einhvern tíma eftir að þær náðu 16 ára aldri. Engar innlendar rannsóknir eru til varðandi heimilisofbeldi þar sem karlar eru þolendur. Ljóst er að bæði kynin geta verið þolendur en miklu mun hærra hlutfall er af kvenkyns þolendum.
Rannsóknir sýna að börn sem verða vitni að heimilisofbeldi upplifa sálrænt áfall og sýna sömu einkenni kvíða og þunglyndis og börn sem sjálf hafa orðið fyrir ofbeldi. Lífsreynsla sem þessi fylgir börnum ævina á enda. Hætt er á að án utankomandi hjálpar geti hún valdið langvinnum erfiðleikum fyrir einstaklinginn.
Í heimilisofbeldismálum er mikilvægt að grípa inn í strax í upphafi máls þegar lögregla er kölluð til, því þar gefst einstakt tækifæri til að hafa áhrif á framhald málsins. Þar opnast „glugginn“ til að aðstoða þolendur og gerendur svo og að taka málið föstum tökum og koma í veg fyrir ítrekuð brot.
Það að lögreglan og félagsmálayfirvöld taki höndum saman gefur skýr skilaboð út í samfélagið „um að ofbeldi á heimilum sé ekki liðið“ og gerir okkur sterkari í að takast á við þetta verkefni þannig að það skili meiri árangri.