6 Febrúar 2015 15:44
Að gefnu tilefni vill ríkislögreglustjóri vara almenning, fyrirtæki og stofnanir við mögulegum tölvuárásum. Um er að ræða sendingar í tölvupósti þar sem er að finna viðhengi sem forðast ber í hvívetna að opna. Algengt er að slík viðhengi endi á .zip.
Upp á síðkastið hefur borið á tölvupósti með viðhengjum, oftast zip-skrám, sem komist hefur í gegnum netvarnir. Oftast eru þetta sendingar frá einhverjum sem viðtakendur kannast ekkert við og tungumálið að jafnaði enska.
Í langflestum tilvikum er um að ræða óværur eða vírusa sem geta unnið mikil spjöll ef skrárnar eru opnaðar. Þekkt eru dæmi þess að fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar hafi með þessu móti fengið svo kallaðan „cryptolocker“ eða „ransomware“ vírus inn á tölvurnar hjá sér og þær orðið algjörlega óstarfhæfar. Skömmu síðar hefur sendandinn samband og býðst til að opna tölvuna gegn greiðslu. Hér er því um fjárkúgun að ræða.
Berist tölvupóstur með viðhengi eða tengli („link“) inn á einhverja vefsíðu frá einhverjum sem viðtakandi þekkir ekki, er ráðlagt að póstinum sé eytt án þess að opna hann.
Berist tölvupóstur frá einhverjum sem viðtakandi kann að þekkja en átti alls ekki von á viðhengi frá, er ráðlagt, hið minnsta, að haft sé samband við sendandann áður en viðhengið er opnað.
Ráðlagt er að fólk opni alls ekki póst og þaðan af síður viðhengi ef sendandinn er ekki þekktur. Ráðlagt er að tenglar séu ekki opnaðir nema vitað sé hvert þeir vísa.