22 Desember 2014 09:10
Um áramótin taka gildi breytingar á lögreglulögum nr. 90/1996 sem hafa í för með sér að fullur aðskilnaður verður milli sýslumanna og lögreglu. Lögregluumdæmunum fækkar úr 15 í 9 og lögreglustjórar fara fyrir hverju þeirra.
Nýju lögregluumdæmin verða:
Lögreglustjórinn á Vesturlandi, sem tekur yfir umdæmi sýslumannanna á Akranesi, Borgarnesi og Snæfellsnesi
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, sem tekur yfir umdæmi sýslumannanna á Blönduósi og Sauðárkróki
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, sem tekur yfir umdæmi sýslumannanna á Akureyri og Húsavík
Lögreglustjórinn á Austurlandi, sem tekur yfir umdæmi sýslumannanna á Eskifirði og Seyðisfirði
Lögreglustjórinn á Suðurlandi, sem tekur yfir umdæmi sýslumannanna á Hvolsvelli og Selfossi, auk þess sem Höfn í Hornafirði færist til hans frá sýslumanninum á Eskifirði
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, sem tekur yfir umdæmi sýslumannsins í Vestmannaeyjum
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, sem tekur yfir umdæmi sýslumannsins á Ísafirði.
Umdæmi lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum taka engum breytingum að þessu sinni, en sambærilegar breytingar voru gerðar á þeim umdæmum árið 2007.
Auk margvíslegra breytinga á innri starfsemi umdæmanna munu ýmsar breytingar verða gerðar á því sem snýr að almenningi. Nýr lögregluvefur, www.logreglan.is, verður opnaður um áramótin og þar verður að finna ýmsar handhægar upplýsingar um nýju lögregluumdæmin. Símanúmer allra lögregluumdæma, nema umdæmis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu munu breytast, sem og opinber netföng umdæmanna. Upplýsingar um símanúmerin og netföngin verða birtar á nýja lögregluvefnum.