Meira um netsvindl – misnotkun á persónupplýsingum.
Þegar upplýsingar um fyrirtæki eða einstaklinga eru misnotuð til að vekja traust.
Lögreglu hafa á undanförnu borist tilkynningar um íbúðasvindl og á sama tíma fyrirspurnir um einstaklinga erlendis. Það er rétt að taka fram að stundum eru þessir einstaklingar eintómur tilbúningur en á öðrum stundum þá er upplýsingum um einstakling stolið og þær hagnýttar til að skapa svindlurunum traust.
Íslendingar hafa lent í að vera notaðir í slíku svindli. Þar notuðu erlendir aðilar upplýsingar um íslensk fyrirtæki og sett upp falskar heimasíður. Í einu tilvik var verið að selja notaðar lúxusbifreiðar og í hinu dráttarvélar og í báðum tilvikum tókst svindlurunum að ná fé af grandlausum kaupendum erlendis.
Ávinningur svindlaranna var að þegar grandvar kaupandi kannaði tilvist fyrirtækisins með google eða áþekkri leitarvél þá kom upp allt um íslenska fyrirtækið og fyrir vikið þá virkuðu viðskiptin eins og þau væru við traustverðan aðila. Til að bæta á svindlið þá var það notað að vegna gjaldeyrishafta á Íslandi þá þyrfti greiðsla að fara í gegn um Ungverjaland.
Vörur voru auglýstar í gegn um sölusíður, falskar heimasíður voru smíðaðar – önnur á sænsku og hin á finnsku en fæstir útlendingar vita hvernig íslenska lítur út. Allar upplýsingar, heimilsfang, kennitala og VSK númer voru réttar en netfang var ekki frá fyrirtækinu heldur vísaði á þjófinn. Í báðum tilvikum tókst að ná peningum af erlendum aðilum.
Íslenski fyrirtækin voru ekki aðili að svindlinu – þau voru misnotuð til að skapa traust á svindl viðskiptum. Í einu tilvik þá komu erlendir aðilar til Íslands til að reyna að endurheimta peningana af íslenska fyrirtækinu.
Ef þið lendið í þessu þá viljum við gjarnan fá tilkynningu um það abendingar@lrh.is
Það er í raun engin leið til að sporna við þessu. Það er mjög lítið mál fyrir svindlara að setja upp tímabundið falskar heimasíður og netföng. Þeir eru oftast staðsettir í löndum utan Evrópu eða Bandaríkjanna og notast við peningasendingar sem hafa stutta viðkomu í því landi sem þær eru sendar þar til þær fara annað.
Það sem á við hér á líka við um Íslendinga sem eru í samskiptum við erlenda aðila. Það er þekkt að þetta sé gert við fyrirtæki um allan heim. Þannig að einföld google leit getur gefið villandi hugmynd. En ef það er skoðað betur þá sést oft strax að fyrirtækin eiga aðrar og réttari heimasíður. Falskar heimasíður eru líka oft of einfaldar. Fáir tenglar og takmarkaðar upplýsingar. Ef ykkur finnst eitthvað grunsamlegt þá er oft gagnlegt að setja inn nafn fyrirtækis og „scam“ í leitarvél og oft eru slíkar upplýsingar á netinu. Þá má einnig senda á okkur fyrirspurn.
Að sama skapi er afar auðvelt að búa til faskar persónuupplýsingar, stela mynd af einhverjum á netinu og segjast vera einhver sem býr í Austurríki og á hund. Þó að það sé til mynd og netfang þá er ekkert sem segir að þessi maður sé til í alvörunni. En hann gæti líka verið til en þú ert í sambandi við einhvern allt annan.
Verið á varðbergi.