Hávaði
Það er oft hávaði í húsinu hjá mér. Hvaða viðmið eru til um slíkt?
Upplýsingar um þetta eru t.d. í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, 74. gr., en þar er fjallað um að stjórn húsfélags skuli semja reglur og leggja fyrir húsfund þar sem meðal annars er lagt bann við röskun á svefnfriði í húsinu frá miðnætti til 07:00 að morgni. Undanþágur frá því banni, ef einhverjar eru, skal fara með skv. 74. gr. laganna sem orðast svo:
- gr.
„Stjórn húsfélags skal semja og leggja fyrir húsfund til samþykktar, sbr. 1. tölulið C-liðar 41. gr., reglur um hagnýtingu sameignar og séreignar að því marki sem lög þessi leyfa.“
Skulu reglur þessar, húsreglur, hafa að geyma sem ítarlegust ákvæði um sambýlishætti, umgengni og afnot sameignar og skiptingu afnota ef því er að skipta, allt eftir því sem við á og eðlilegt og haganlegt þykir að reglufesta í viðkomandi húsi.
Í húsreglum fjölbýlishúsa skal m.a. fjalla um neðangreind atriði:
- Umgengni um sameign og um afnot hennar og hagnýtingu.
- Bann við röskun á svefnfriði í húsinu a.m.k. frá miðnætti til kl. 7 að morgni og undanþágur frá því banni.
- Skiptingu afnota sameiginlegs þvottahúss.
- Hvernig þrifum sameignar og umhirðu lóðar skuli háttað og hverjar séu skyldur eigenda í því efni.
- Reglur um hunda- og/eða kattahald sé það leyft, sbr. 13. tölul. A-liðar 41. gr.
- Reglur um afnot sameiginlegra bílastæða.
- Reglur um hagnýtingu séreigna að því marki sem unnt er.
Sjá að öðru leyti lög um fjöleignarhús á heimasíðu Alþingis með því að smella hér.
Hvernig eru reglur um hve snemma má hefja hávaðasöm störf á byggingarreitum?
Um þetta er fjallað í reglugerð um hávaða, en hana má finnan hérna að neðan. Í töflu IV í reglugerðinni er fjallað um háværar og sérstaklega háværar framkvæmdir sem eru unnar nálægt íbúabyggð og gefin upp tímamörk hvað þetta varðar. Sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir eru þær sem fela í sér:
„Vinna sem hefur í för með sér mikinn hávaða svo sem vinna við höggbor, háværa háþrýstidæli, meitlun á bergi eða sprengingar.“
Í reglugerðinni má finna ýmsar tölulegar upplýsingar, tímamörk, hávaðamælingar og margt annað sem miða má við. Almennt virðist miðað við að hávaði megi ekki byrja fyrir en kl. 07:00 á virkum dögum en kl. 10:00 um helgar. Þá kemur einnig fram að sérlega hávaðasamar framkvæmdir megi ekki standa yfir um helgar eða á öðrum frídögum.
Eftirlit með þessari reglugerð er í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga en Umhverfisstofnun fer með yfirstjórn þessara mála.
Í hverfinu mínu er nýbygging en smíðahávaði er langt fram á kvöld og snemma á morgnanna um helgar. Hvað er hægt að gera?
Almennt séð segir í lögreglusamþykktum að virða skuli næturfrið, en sannarlega mætti velta fyrir sér hvort að byggingarvinna eins og þú lýsir falli undir það. Sé þetta að gerast er þér að sjálfsögðu velkomið að láta okkur vita og þá reynum við að skoða málið. Þess ber þó að geta að almennt sinnum við ekki hávaðaútköllum sem berast vegna mála sem eiga sér stað fyrir miðnætti. Að sama skapi fylgist heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga með því hvort að gætt sé að ákvæðum heilbrigðisreglugerða, t.d. hvað varðar byggingarvinnu. Það gæti því einnig verið gott að láta sveitarfélagið vita, en þá er ef til vill hægt að gera aðfinnslur við þetta.