Þetta er alltaf svolítið erfitt mál, enda er sala á notuðum munum gegnum síður eins og bland.is töluverð og virðist fara vaxandi. Þannig koma reglulega upp ábendingar um að þar sé verið að selja stolna muni, en okkar reynsla er að slíkt sé algjör undantekning og að munir sem fara í gegn séu lang oftast vel fengnir.
Þannig virðist einnig vera að hér á landi sé nokkur hópur einstaklinga sem virðist hafa það sem atvinnu að braska með muni í gegnum svona síður. Þannig er ef til vill fyrsta skref fyrir þig að tilkynna símann stolinn en það gerirðu á lögreglustöðinni í hverfinu þínu. Ef þú hefur ástæðu til að ætla að þetta sé sannarlega síminn þinn þá er ef til vill réttast að leggja hreinlega fram kæru vegna málsins, en þá rannsökum við það eins og önnur mál sem okkur berast.
Hér er þó gott að muna að GSM símar eru til í gríðarlegu magni og eru mörk slík tæki til sölu hverju sinni. Þess ber einnig að geta að ef þú tilkynnir símann stolinn geturðu farið með tilkynninguna til símafélaganna og fengið símann á vakt, þannig að ef einhver byrjar að nota þetta tiltekna tæki erum við látin vita.
Posted in: Týndir munir