3 Júlí 2017 14:27
Að kveldi 27. júní voru björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum kallaðar út til leitar að tveimur göngumönnum sem gengu upp frá Syðridal í Bolungarvík og ætluð að ganga yfir nálæga fjallgarða en þegar þeir voru ekki komnir fram á tilsettum tíma var farið að óttast um þá. Skömmu eftir miðnætti fundu björgunarsveitarmenn fólkið ekki langt frá Galtarvita. Ekkert amaði að fólkinu en för þeirra tafðist vegna þoku. Stopult símasamband var á gönguslóð fólksins.
Síðdegis þann 28. júní var óskað eftir aðstoð björgunarsveita á norðanverðum Vestfjörðum vegna fimm erlendra göngumanna sem höfðu lent í sjálfheldu í flæðarmálinu milli Skálavíkur og Galtarvita, n.t.t. við Öskubak. Björgunarsveitarmenn frá Bolungarvík komu fólkinu til bjargar á báti. Allt fór vel.
Einn maður var handtekinn þar sem hann var ölvaður og með óspektir á tjaldstæðinu á Hólmavík. Hann var færður í fangaklefa og látinn sofa úr sér vímuna. En þá var honum sleppt lausum. Bæjarhátíðin Hamingjudagar voru haldnir á Hólmavík þessa helgina. Allt gekk vel að öðru leyti á Hólmavík.
Að morgni 1. júlí kærði maður líkamsárás sem hann sagði hafa átt sér stað um nóttina. Árásin er talin hafa átt sér stað í Ísafjarðarbæ. Ákverkar mannsins voru minniháttar. Málið er til rannsóknar.
Umferðarmál.
Lögreglan hafði afskipti af einum ökumanni sem var með bláar perur í ökuljósum bifreiðar sinnar. Slíkt er bannað lögum samkvæmt. Er það gert til að tryggja að ekki fari milli mála hvort um bifreið viðbragðsaðila eða aðra bifreið sé að ræða.
Alls bárust 8 tilkynningar um um að ekið hafi verið á lambfé á vegum víðsvegar í umdæminu.
Alls voru 33 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Einn þeirra, ungur ökumaður sem nýlega var kominn með ökuréttindi, var sviptur þeim til bráðabirgða. Ökuhraði bifreiðarinnar sem hann ók mældist 145 km m.v. klst. þar sem hámarkshraði er 90 km. Viðurlög við slíku broti er 130.000 kr sekt og a.m.k. eins mánaða svipting ökuréttinda. Þetta er þriðji ökumaðurinn sem sviptur er strax, til bráðabirgða, í framhaldi brots í júnímánuði.
Tilkynnt var um nokkur umferðaróhöpp í vikunni sem leið. Eitt þeirra varð á Kleifaheiði þar sem ökumaður vélhjóls missti stjórn á hólinu í tjöru eða olíubleytu sem var á bundnu slitlagi vegarins. Ökumaðurinn missti hjólið á hliðina og féll af því. Ökumaðurinn, sem var í góðum hlífðarfötum og búnaði, hlaut ekki alvarlega áverka en þó lemstraður og marinn. Starfsmönnum Vegagerðarinnar var gert viðvart til að gera ráðstafanir til að hreinsa veginn.
Bílvelta var á Drangsnesvegi aðfaranótt 28. júní en þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að bifreiðin rann út af veginum og valt. Ásamt ökumanni voru þrír farþegar. Engann sakaði enda allir spenntir í öryggisbelti. Bifreiðin var óökufær eftir óhappið.
Margar samkomur voru í umdæminu um nýliðna helgi. Má þar nefna Dýrafjarðardaga á Þingeyri og nágrenni, Markaðsdaga í Bolungarvík, Hamingjudaga á Hólmavík, landsmót harmonikkuunnenda á Ísafirði og mót ungs björgunarsveitafólks af landinu á Ísafirði. Þá voru vélhjólaáhugamenn víðs vegar af landinu með samkomu á Núpi í Dýrafirði. Samkomur þessar gengu vel fyrir sig án teljandi afskipta lögreglunnar. Lögreglan var með aukið eftirlit í tilefni aukins umferðarþunga.