Jökulsá á Fjöllum – Mynd tekin í gær 4. janúar.
5 Febrúar 2021 16:19

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra:

  • Breyttur opnunartími á veginum yfir Jökulsá á Fjöllum
  • Óvissustig almannavarna vegna krapahlaups í Jökulsá á Fjöllum enn í gildi
  • Enn hætta á krapahlaupum í Jökulsá á Fjöllum

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglan á Norðurlandi eystra, Vegagerðin, Veðurstofa Íslands og sveitastjóri Skútustaðahrepps funduðu í morgun vegna Jökulsár á Fjöllum.

Enn er vatnshæð há í Jökulsá á Fjöllum við brúarstæðið yfir ána, eða um 5 m. Hún hefur farið hægt lækkandi frá 1. febrúar en búast má áfram við sveiflum í henni. Enn er töluverður ís og krapi ofan og neðan við brúna, en frá því í gær hefur opið rennsli um miðjan krapann farið stækkandi, sem er jákvæð þróun. Næstu daga verður áfram kalt í verði og því fyllsta ástæða til þess að fylgjast vel með aðstæðum. Vegagerðin vaktar brúna á opnunartíma, Veðurstofan fylgist með vatnsmælum og sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðar lögregluna á Norðurlandi eystra við gagnasöfnun með reglulegu drónaflugi.

Í ljósi þess að dag lengir og jákvæð teikn eru á lofti hvað varðar krapastífluna hefur verið ákveðið að lengja opnunartíma fyrir umferð. Vegurinn verður opinn næstu daga á milli 09:00-19:00, en lokaður utan þess tíma. Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á mánudaginn 8. febrúar að öllu óbreyttu.

 

Sérsveit ríkislögreglustjóra fylgist reglulega með breytingum í ánni úr dróna.

Jökulsá á Fjöllum – Mynd tekin í gær 4. janúar.