2 Janúar 2020 10:58

Lögreglan sinnir margvíslegum störfum við að þjónusta borgara þessa lands. Um er að ræða sólarhringsþjónustu allan ársins hring, á hátíðisdögum sem og öðrum dögum. Þegar þjóðarpúls Gallup árið 2019 er skoðaður, um hvaða traust borgarar bera til almenningsþjónustu, má sjá að lögreglan og Landhelgisgæslan skora hæst og ná báðir þessir aðilar yfir 80% skori. Almennt má því segja að almenningur treysti lögreglunni vel.

Ein deilda lögreglunnar er fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra (FMR) í Skógarhlíð. Stöðugildin þar eru 22, en af þeim sinna 19 sólarhringsvöktum.

Ríkislögreglustjóri starfrækir fjarskiptamiðstöð sem er stoðdeild við lögregluumdæmin í landinu og sinnir samræmingarhlutverki við lögregluliðin. FMR tekur við símtölum og verkefnum frá 112 sem ætluð eru lögreglu og forgangsraðar þeim og annast stýringu alls útkallsliðs lögreglu til verkefna. FMR er því tengiliður borgaranna við lögregluna og jafnframt við lögreglumenn sem starfa úti á vettvangi.

Ríflega 70% allra erinda sem berast 112 flokkast sem lögregluverkefni og eru flutt yfir til FMR til úrlausnar. Einnig veita starfsmenn FMR lögreglumönnum á öllu landinu ýmsa þjónustu t.d. með uppflettingum í landskerfi lögreglunnar, LÖKE.

FMR er samtengd starfsemi sérstakrar stjórnstöðvar lögregluaðgerða og samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna og er hluti af áhöfn hennar.

Um 200 símtöl koma frá 112 til FMR á sólarhring en þess má geta að á 12 tíma vakt um áramótin, frá kl. 19:00 á gamlárskvöld og fram til 07:00 á nýársdagsmorgun voru símtölin 210 til FMR. Þá eru ótalin öll þau önnur samskipti sem starfsmenn FMR áttu við lögregluliðin í gegnum talstöð og síma.

Hér má sjá hluta þeirra lögreglumanna á FMR sem stóðu vaktina yfir jól og áramót:

Myndatexti: Dagvakt FMR á jóladag 2019.

Myndatexti: Næturvakt FMR um áramót 2019-2020.