Þessi mál eru skiljanlega mjög ofarlega á forgangslista okkar og við tökum þau mjög alvarlega en einn starfsmaður embættisins hefur það hlutverk að safna öllum slíkum tilkynningum saman og greina þær frekar.

Gott er að geta þess að slík mál koma oft upp í kjölfar umræðu og er það reynsla okkar að komi ein tilkynning, fylgja oftast fleiri með í kjölfarið. Þannig virðist umræðan stundum kalla fram ákveðinn ótta hjá börnum og fara þau því að túlka eðlilegar aðstæður á verri veg. Við hverjum börn til að vera á varðbergi og hlaupa í burtu ef þau upplifa sig í hættu en það veldur því líka  að við fáum stundum tilkynningar þar sem börn mistúlka aðstæður sem eðlilegar skýringar finnast á. Við viljum þó að okkur berist of margar tilkynningar heldur en of fáar.

Hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er lögð mikil vinna við að skrá niður allar upplýsingar og meta aðstæður, hvort um sama aðila sé að ræða, alvarleika málanna og þar fram eftir götunum. Þannig er hvert mál skoðað og borið saman við önnur tilvik, en það er einmitt gert til þess að lögreglan geti brugðist hratt við ef aðstæður skapast þar sem hætta er talin vera á ferðum. Þess ber að geta að í langflestum tilfellum eru málsatvik mjög óljós og því erfitt að greina hvort um raunverulega hættu hafi verið að ræða.

Hvað aukið eftirlit varðar þá er slíkt að sjálfsögðu alltaf í skoðun. Við höfum yfir ákveðnum fjölda lögreglutækja að ræða og reynum að beita þeim jafnt í þeim hverfum sem lögreglustöðvarnar sinna. Þannig getum við ekki sinnt einu hverfi umfram öðru, enda ekkert sem bendir til að slíkar tilkynningar, þar sem grunur leikur á að reynt hafi verið að tæka barn í bíl, séu bundnar við ákveðin hverfi. Þvert á móti koma þessi mál upp um allt höfuðborgarsvæðið, en eins og áður kom fram, koma þær gjarnan nokkrar saman. Það fær fólk stundum til þess að halda að sérstök hætta sé í ákveðnu hverfi, en svo þarf alls ekki að vera, enda leggjum við töluverða vinnu í að greina þessi mál frekar.

Að þessu sögðu er þér og öðrum íbúum meira en sjálfsagt að vera í sambandi við lögreglustöðina í hverfinu ykkar en þar getið þið rætt við yfirmenn stöðvanna um áhyggjur ykkar.

Posted in: Ýmislegt