23 September 2020 16:45

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hvetur almenning til að huga að persónulegum smitvörnum nú þegar smitum vegna Covid-19 hefur fjölgað á ný. Vonandi tekst okkur að hefta útbreiðslu frekari smita með rakningu, raðgreiningu, einangrun og sóttkví.   Virða þarf 1 metra nándarregluna.  Mælt er með að nota andlitsgrímur þegar ekki er hægt að virða nándarreglu og þar sem loftgæði eru ekki góð.  Starfsfólk og nemar í framhaldsskólum og háskólum nota andlitsgrímur í dag.  Mælt er með því að vinnustaðir bjóði upp á fjarvinnu þar sem starfsemi fyrirtækja fer úr skorðum ef ekki er gætt að smitvörnum og margir þurfa að fara í sóttkví.   Rétt er að árétta að skimanir eru fyrst og fremst ætlaðar fyrir einstaklinga sem hafa verið útsettir fyrir smitum.   Heilsugæsla í nærumhverfi sinnir einstaklingum með sjúkdómseinkenni. Lögreglustjóri telur brýnt að fylgt sé því verklagi að einstaklingur fari í sóttkví eftir að rakningateymi almannavarna hefur sett sig í samband við viðkomandi.  Þeim skilaboðum hefur umdæmislæknir sóttvarna hér á Vesturlandi komið á framfæri við sóttvarnalækni.    Aðgerðastjórn hér á Vesturlandi bindur vonir við að ekki þurfi að senda einstaklinga sem útsettir eru fyrir smiti um langan veg til sýnatöku eins og raunin varð með sýnatöku vegna tilviks tengt íþróttamiðstöð á Akranesi. Þurfum að vera á varðbergi og huga að persónulegum smitvörnum þar sem fjarlægðarregla og handþvottur skipta miklu máli.   Þá er alltaf gott að kynna sér málin á covid.is.