16 Janúar 2021 12:16

Tilkynning barst til lögreglunnar á Vestfjörðum klukkan 10:16 um alvarlegt umferðarslys á Djúpvegi í vestanverðum Skötufirði. Fjölmennt lið lögreglu, sjúkraflutninga og lækna, slökkviliðs og björgunarsveita var sent á vettvang auk þess sem tvær þyrlur Landhelgisgæsunnar voru kallaðar út og sendar á vettvang. Þá var samhæfingarstöð í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð virkjuð.

Í fyrstu upplýsingum kom fram að bifreið hefði fari útaf veginum og í sjóinn og að þrennt hafi verið í bílnum. Vinna viðbragðsaðila er í gangi á vettvangi og báðar þyrlurnar komnar á staðinn. Búið er að ná fólkinu í land og komið í sjúkrabíla.

Samkvæmt upplýsingum er flughálka á veginum, lágskýjað og hægur vindur

Uppfært: 12:56

Öll þau sem voru í bílnum, sem fór útaf Djúpvegi í Skötufirði og hafnaði í sjónum í morgun, eru komnir  um borð í þyrlur Landhelgisgæslunnar. Verða þau flutt á sjúkrahús í Reykjavík.

Lögreglan hefur þegar tilkynnt aðstandendum um slysið. Ekki er unnt að greina frá líðan fólksins að svo stöddu. Rannsókn á tildrögum slyssins er hafin á vettvangi.