8 September 2020 08:18
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. ágúst – 5. september, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 31. ágúst. Kl. 11.54 var bifreið ekið á húsvegg í Staðarbergi í Hafnarfirði, en svo virðist sem ökumaðurinn hafi í aðdragandanum stigið á bensíngjöfina í stað bremsunnar. Hann og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 13.05 missti ökumaður torfæruhjóls stjórn á því utanvega á Esjumelum og féll í jörðina. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 1. september. Kl. 10.33 missti ökumaður á leið austur frárein af Hringbraut yfir á Bústaðaveg stjórn á bíl sínu, sem hafnaði á steyptum vegbúnaði og ljósastaur. Ökumaðurinn, sem var illa áttaður eftir slysið og mundi ekkert eftir aðdragandanum, var fluttur á slyssadeild. Og kl. 15.58 var léttu bifhjóli ekið á kyrrstæða bifreið á bifreiðastæði við Strandveg. Við það valt bifhjólið, en ökumaður þess var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 4. september. Kl. 15.01 var bifreið ekið suður Klapparstíg og á reiðhjólamann á gatnamótum við Laugaveg, en hann var á leið vestur Laugaveg. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.47 varð árekstur tveggja bíla, sem voru báðir á leið norður Lönguhlíð. Í aðdragandanum var þeirri á hægri akrein ekið yfir á vinstri akrein með fyrrgreindum afleiðingum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 5. september kl. 18.55 rákust saman á gatnamótum bifreið, á leið suður Klapparstíg, og rafhlaupahjól, á leið austur Hverfisgötu. Ökumaður rafhlaupahjólsins ætlaði sjálfur að leita aðstoðar á slysadeild, en farþegi á hjólinu var fluttur þangað með sjúkrabíl.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.