26 Mars 2020 10:56

Ferðatakmarkanir til Íslands og 14 daga sóttkví fyrir alla með búsetu á Íslandi

 

Vegna útbreiðslu Covid-19 hafa íslensk stjórnvöld innleitt ferðatakmarkanir á ytri landamærum Schengen svæðisins í samræmi við tilmæli leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Frá og með 20. mars 2020 er öllum erlendum ríkisborgurum – nema ríkisborgurum ESB/EES, EFTA og Bretlands – óheimilt að koma til Íslands. Tilmælin gilda til 17. apríl 2020.

Vinsamlegast athugið jafnframt að frá og með fimmtudeginum 19. mars 2020 er Íslendingum og öðrum með búsetu á Íslandi skylt að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins, án tillits til þess hvaðan þeir eru að koma. Þetta gildir einnig um Íslendinga sem eru búsettir erlendis og koma til landsins sem og nýja íbúa.

Til hverra ná ferðatakmarkanirnar?

Ferðatakmarkanirnar gilda um alla erlenda ríkisborgara, nema ríkisborgara ESB/EES, EFTA og Bretlands, óháð því hvort þeir þurfi áritun til að ferðast til Schengen svæðisins eða ekki.

Til hverra ná ferðatakmarkanirnar ekki?

Ferðatakmarkanir gilda ekki um:

  • ESB-borgara
  • Ríkisborgara EFTA ríkjanna
  • Breska ríkisborgara
  • Einstaklinga með gilt dvalarleyfi á Íslandi eða í einhverju aðildarríkja Schengen samstarfsins
  • Aðstandendur Íslendinga eða annarra ESB/EFTA-borgara, þ.e. makar, sambúðarmakar, afkomendur (yngri en 21 árs) og ættingjar í beinan legg af eldri kynslóð á framfæri þeirra.

Undanþágur

Ferðatakmarkanirnar eiga ekki við um þá sem koma til landsins í brýnum erindagjörðum, þ. á m. farþega í gegnumferð, starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu, starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu, einstaklinga sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd, einstaklinga sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni og diplómata, starfsmenn alþjóðastofnana, meðlimi herliðs og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð.

Erlendum ríkisborgurum sem ferðatakmarkanirnar ná til, sem þurfa að ferðast til aðildarríkis Schengen samstarfsins í gegnum Ísland í brýnum erindagjörðum, er ráðlagt að hafa samband við yfirvöld í því ríki sem þeir þurfa að ferðast til til að fá skriflega staðfestingu á heimild til komu til viðkomandi ríkis. Án slíkrar staðfestingar er ekki hægt að heimila erlendum ríkisborgurum, sem ferðatakmarkanirnar ná til, að koma inn á Schengen svæðið á Íslandi.

Ef Ísland er áfangastaðurinn, er mælt með því að erlendir ríkisborgarar sem ferðatakmarkanirnar ná til hafi samband við næsta sendiráð Íslands eða ræðismannaþjónustu utanríkisráðuneytisins (í síma +354 545 0112 eða help@mfa.is) til að fá upplýsingar um hvernig hægt sé að fá undanþágu frá ferðatakmörkununum.

 

Vinsamlegast athugið að ef ætlunin er að ferðast til Íslands með millilendingu í öðru ríki, er mikilvægt að kynna sér vel hvort einhverjar ferðatakmarkanir hafi verið innleiddar í viðkomandi ríki sem gætu haft áhrif á ferð þína til Íslands.

Frekari upplýngar https://www.utl.is https://www.stjornarradid.is/